Allslausir kleinuhringir

22/03/2012

Kökur

Ég gerði svo ljúffenga kleinuhringi um daginn að mig langar alveg endilega að segja ykkur frá þeim. Uppskriftin er fengin úr annarri bók Babycakes bakarísins (því sama og ég heimsótti í NY) og kleinuhringirnir eru þar af leiðandi glútenlausir, mjólkurlausir, vegan og innihalda engan hvítan sykur. Ég tek fram að ég er hvorki með glútenóþol, mjólkuróþol og síst af öllu er ég vegan (haha þvílík hugdetta!) en ég er að prófa mig áfram með að baka án hvíts sykurs. Þessir kleinuhringir innihalda agave sem er vissulega sætt en ég ætla ekkert að fara út í agave vs. sykur umræðuna. Agave er eitthvað sem ég má borða í takmörkuðu magni í stað hvíts sykurs svo ég kýs að nota það.

Ef maður ætlar að baka eitthvað án smjörs, hveitis, sykurs og eggja þá þarf að nota allskyns undarlegt hráefni sem getur verið erfitt að nálgast. Í Babycakes bókinni er nánast eingöngu notast við vörur frá Bob’s Red Mill og það var smá fyrirhöfn að finna allt sem ég þurfti í baksturinn. Ég sá að Kostur var að auglýsa Bob’s Red Mill vörurnar um daginn svo það má hugsanlega nálgast eitthvað af þessu þar.

Þetta eru herlegheitin og svo ég listi þetta nákvæmlega upp þá þarf:

1/3 bolli kókosolía eða canola olía (ég notaði canola því hún er miklu ódýrari)
3/4 bolli hrísgrjónahveiti (rice flour)
1/3 bolli sorghum hveiti
1/2 bolli kartöflusterkja
1/4 bolli arrowroot
1 1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
1/8 tsk matarsódi
1/4 tsk xanthan gum
3/4 bolli agave sýróp
6 msk ósykrað eplamauk
1/4 bolli vanilluextract (má nota vanilludropa og já það er í alvöru svona mikið af þessu!)
1/4 bolli heitt vatn

Ég hitaði ofninn í ca 160° og smurði kleinuhringjaformið mitt. Ég var reyndar alveg rosalega utan við mig og greip bara PAM-ið og þar með voru kleinuhringirnir ekki lengur glútenlausir! Það vill til að mér var alveg sama en að sjálfsögðu hefði ég átt að pensla formið með canola olíu.

Næsta skref var að blanda öllum þurrefnunum saman.

Því næst setti ég agave, kókosolíu, eplamauk, vanillu og heitt vatn saman við og blandaði öllu vel saman.

Ég setti sirka tvær matskeiðar af deigi í hvert kleinuhringjamót og dreifði vel úr því.

Þetta fór svo í ofninn í 8 mínútur en þegar þær voru liðnar þá snéri ég forminu og bakaði í aðrar 8 mínútur. Ég trúði því varla en úr þessu urðu til fullkomnir kleinuhringir sem skoppuðu úr forminu!

Þó þeir líti vel út einir og sér þá er nú alveg nauðsynlegt að setja eitthvað ofan á þá. Ég bjó til krem úr sömu bók sem er að sjálfsögðu allslaust líka :)

Í kremið þarf:

1/2 bolli kókosmjólk
3/4 bolli “Better Than Milk” hrísgrjóna- eða sojaduft
4 msk agave sýróp
1 msk vanilluextract (má nota vanilludropa)
1 bolli kókosolía
1 msk sítrónusafi

Allt nema kóksolía og sítrónusafi sett í skál og þeytt saman. Kókosolíu og sítrónusafa er svo bætt smám saman út í og úr verður hálfgert “glaze”. Ef kremið er kælt þá þykknar það og hentar t.d. vel til að setja ofan á cupcakes.

Mér fannst ekki nóg að setja bara krem á kleinuhringina heldur langaði mig óskaplega að skreyta þá með bleiku kókosmjöli. Bleikt kókosmjöl er hægt að gera með því að blanda örlitlum rauðum matarlit saman við kókosmjöl og vinna saman í höndunum. Eina vandamálið er að í Bandaríkjunum virðist vera mjög erfitt að nálgast venjulegt kókosmjöl og á það víst bara heima í heilsuverslunum. Það er hins vegar hægt að kaupa sætar kókosflögur og þar sem löngunin í bleikt kókosmjöl var svo mikil þá ákvað ég að örlítið magn myndi nú varla gera út af við mig.

Ég ætla að taka það fram að þetta er engan veginn heilsufæði. Þessir kleinuhringir eru samt helmingi minni en venjulegir kleinuhringir og eru bakaðir en ekki djúpsteiktir svo þeir eru ágætis valkostur ef mann langar í eitthvað pínu sætt og fallegt. Þeir frystast líka mjög vel svo það er hægt að fá sér einn og geyma svo restina til betri tíma. Mér finnst að það eigi að borða svona dásamlegan kleinuhring af fallegasta diski í húsinu!

Subscribe

Subscribe to our RSS feed and social profiles to receive updates.

6 Comments on “Allslausir kleinuhringir”

  1. kristjanagudjonsdottir Says:

    Vááá hvað þeir eru girnilegir. Sérstaklega með bleika kókosmjölinu! :) Ég held ég þurfi að prófa þetta um leið og ég flyt í nýju íbúðina.

    Reply

  2. clara Says:

    læk!

    Reply

  3. Heiða Halls Says:

    Þú ert snillingur!!! ;)

    Reply

  4. Helga Arnar Says:

    jummy!!

    Reply

  5. Rósa Says:

    Mér finnst þínir fallegri en í bókinni :)

    Reply

  6. kgroa Says:

    Já þeir eru sko jömmí og Krissa ég mæli með að þú prófir!

    Rósa veistu ég held að það sé satt að segja ameríska kókosmjölinu að þakka að mínir líta svona vel út. Þó mér finnist fáránlegt að það sé ekki hægt að kaupa venjulegt kókosmjöl út í búð þá verð ég að viðurkenna að mér finnst þetta ameríska fallegra :)

    Reply

Leave a comment